Soria

Það var jökulkalt og napurt þegar við keyrðum til Keflavíkur á leið úr landi. Förinni heitið til Spánar. Nánar tiltekið til bæjar sem heitir Soria og er um 200 km norðan við Madrid. Þar verður fundur CEMR haldinn en það eru samtök sveitarfélaga og svæðasambanda í Evrópu en þar er ég í þetta sinn eini fulltrúinn í sendinefnd íslenskra sveitarfélaga. Ferðin þótti löng og ströng fyrir ekki lengri fund og þar sem ég var hvort sem er að fara til Spánar þá var ákveðið að ég færi sem fulltrúi okkar. Ég var ágætlega ánægð með það svo sem alvön löngum og furðulegum ferðalögum og það á meira framandi slóðum en Spán. Flugum með Easyjet til Manchester sem var fínt. Engin ástæða til að kvarta yfir neinu hjá því ágæta flugfélagi. Flugvöllurinn í mAnchester er lítill og þægilegur en þar þurftum við að bíða í 3 tíma. Veitti ekki af þar sem Easyjet tékkar ekki töskur nema á fyrsta áfangastað og því þurfum við að fara og ná í töskurnar og labba svo utandyra yfir á annan terminal og tékka okkur inn aftur. hvimleitt en svo sem í lagi. Í svona vesen veitir ekki af að lágmarki 2,5 tímum á milli fluga. Flugum svo með Ryanair áfram til Madrid. Mér finnst Ryanair versta lággjaldaflugfélagið og ferðast helst aldrei með þeim nema í algjörri neyð. Við lifðum þetta svo sem alveg af en þetta er auðvitað hrein hörmung. Ekki net fyrir dót á baki sætanna svo maður er í vandræðum með allt alla leiðina, eitthvað furðulegt gult harðplast í sætisbökum þannig að manni líður eins og flogið sé með Bónus og rýmið milli sæta kapítuli út af fyrir sig ! En komum til Madrid um kvöldið og mér fannst ég ansi sniðug að panta hreinlega hótel við flugvöllinn svo við gætum farið snemma að sofa en um morguninn tók við rútuferð til Soria. Tókum leigubíl morguninn eftir að rútustöðinni í Madrid og tókum þaðan rútuna til Soria. Hin besta rútuferð þó það væri svo sem ekki margt að sjá á leiðinni. Við keyrðum á móti kuldanum þar sem þetta er það miklu norðar en Madrid og hærra í landinu. Samt var þarna ágætis íslenskt haustveður. Ekki vetur á okkar mælikvarða. Gistum þarna á fínu hóteli í miðbænum sem heitir Hotel Apolonia. Alveg hægt að mæla með því ef einhver á leið um svæðið. Fundurinn byrjaði síðan kl. 16:00 með hefðbundinni dagskrá. Ég hef sótt þónokkra fundi þessa hóps og þekki því ágætlega marga þarna svo það var lítið mál að vera ein í sendinefndinni :-) Fundað var fram undir kvöld en þá var hópnum ekið út í sveit þar sem glæsilegt matarboð var haldið í fornu klaustri sem þarna var utan við bæinn. Þetta var hið skemmtilegasta kvöld, við sátum með norsku sendinefndinni eins og við gerum alltaf og daninn sem einnig var einn á ferð var líka með okkur. Það er ávallt nógu að taka í umræðum skandinavísku fulltrúanna ! Daginn eftir var fundað fram eftir degi og meðal annars samþykkt fjárhagsáætlun og starfsáætlun samtakanna árið 2018 auk þess sem ýmis verkefni önnur voru kynnt. Samtökin munu standa fyrir stórri dagskrá í Bilbao í júní á þessu ári og þar verða jafnréttismál í víðasta skilningi mál málanna. Eftir að dagskrá lauk fórum við Lárus í maraþon gönguferð um Soria. Þegar við vorum komin svolítið af stað tek ég eftir því að símann minn vantar í töskuna mína. Verð að játa það að hjartað tók aukaslög af stressi enda öll kreditkortin mín í símahulstrinu. Þarna stefndi í fullkomið óefni enda næstum engar líkur á að fá til baka það sem týnist í útlöndum ! ! ! En ég hringdi nú samt í símann og viti menn, var ekki svarað á hinum endanum! Þá hafði ég gleymt símanum á hlaðborðinu og þar lá hann bara þegar ég. Hringdi í ´ann ! Get sagt ykkur að það var skundað rösklega til baka til að ná í kortin ekki síst. Þvílík hundaheppni ! !' En Soria er fallegur lítill bær þar sem maður getur séð allt á einum eftirmiðdegi. Dvölin þar var því akkúrat passleg. Þarna eru falleg klaustur og kirkjur. Löbbuðum uppa að Madonna del Mirón Hermitage sen er falllegt klaustur þar sem maður á að íhuga í þögn. Við, Lárus ! ! ! Miklar líkur á að það hafi tekist. Þaðan gengum við niður í dalinn fyrir neðan og að klaustri sem heitir San Juan de Duero. Byggt á miðöldum og afar fallegt. Þar eru mjög fallegar og sérstakar súlur sem einkenna klausturgarðinn sem var gaman að sjá. Þaðan röltum við upp í miðbæ því þarna var nákvæmlega allt lokað á milli kl. 13 og 17, söfnin líka. Þarna eru svo sem engir ferðamenn og heldur ekki á sumrin. Þarna talar heldur ekki nokkur maður ensku og meira að segja unga kynslóðin skilur hreint ekki neitt. Talsett sjónvarpsefni er martröð tungumálakennarans held ég ! Daginn eftir tókum við síðan rútuna aftur til Madrid og vetrarfríið byrjaði þar með !

Comments

Popular posts from this blog

Madrid