Madrid

Komum til Madrid undir hádegi og tékkuðum okkur beint inn á hótel, Pasea del Arte, við Atocha stræti sem er rétt við aðalbrautarstöðina. Verulega góð staðsetning og virkilega gott hótel. Röltum strax af stað að skoða borgina. Fundum fínan veitingastað fyrir hádegismatinn rétt hjá hótelinu svo þrekið myndi nú duga fyrir bæjarröltið. Byrjuðum á því að labba upp alla Atocha götuna og vel að merkja hér eru brekkur! Enduðum á Plaza de Mayor sem er eitt frægasta torg borgarinnar. Virkilega skemmtilegt mannlíf og margt að sjá og skoða. Þar rétt hjá er svo stærsta og elsta stálgrindarhús borgarinnar sem núna hýsir stærðarinnar matarmarkað ekki ósvipaðan því sem reynt hefur verið að búa til á Hlemmi. Þar var nú ekki erfitt að eyða dágóðum tíma í að ráfa um og smakka alls konar rétti. Gaman að því að hægt var að kaupa næstum því munnbita á hverjum stað sem kostuðu eina til tvær evrur hver þannig að það var hægt að koma víða við án þess að borða sér til óbóta. Löbbuðum síðan áfram og niður að konungshöllinni og þar heimsóttum við kirkju sem þar er rétt fyrir neðan. Þá var í gangi þar brúðkaup sem við enduðum á að fylgjast með og njóta tónlistarinnar sem þar var flutt. Einstök upplifun enda hljómburður í svona risastórum kirkjuhvelfingum með eindæmum góður. Á torginu fyrir framan konungshöllina var múgur og margmenni enda veðrið gott . Þar nutum við sólarlagsins yfir Madrid undir hörpu og fiðlu tónum sem gerði upplifunina enn meiri. Mjög fallegur staður. Röltum síðan gjörsamlega uppgefin heim á leið eftir að hafa gengið um 15 kílómetra yfir daginn. Allavega emjaði betri helmingurinn heilmikið yfir þessari meðferð... Dagur tvo í Madrid Sváfum frameftir og skröltum í morgunmat seint og um síðir. Hér eru þeir svo hugulsamir að morgunmaturinn er til kl. 11 um helgar. Það hentaði okkur vel. Fórum síðan út og keyrðum um borgina á eftri hæðinni í útsýnisstrætó. Það er ágætis leið til að læra að rata og svo sér maður allt á einu bretti sem vert er að sjá og gerir sér grein fyrir hvað á að heimsækja aftur. Madrid er afskaplega falleg borg og augljóslega hægt að eyða hér mörgum dögum ef vilji er til þess. Hús eru hér afar glæsileg og mörg hver íburðarmikil svo það er hrein unun að skoða arkitektúr og skreytingar því fjölbreytnin í því er mikil. Stukkum úær vagninum við egypska hofið Debod sem flutt var til Madrid frá Egyptalandi árið 1968. Það er aftur á móti reist á annarri öld fyrir Krist svo þetta er merkur staður. Spánverjarnir rændu þessu reyndar ekki heldur óskuðu Egyptar eftir alþjóðlegri aðstoð við að fjarlægja mynjar og mannvirki þegar að risa stíflan við Aswan var reist en uppistöðulón hennar færði þar stór svæði á kaf. Egypska ríkið gaf Spánverjum þetta hof sem flutt var að konungshöllinni og opnað almenningi fjórum árum síðar. Þetta er einstaklega fallegur staður og gaman að skoða þessar fornu mynjar. Frá Debod er bara stuttur gangur í gegnum hallargarðinn sem er ótrúlega fallegur og að höllinni. Vorum reyndar í óratíma á leiðinni því það var ekki hægt annað en að sleikja sólina í góða veðrinu og dáðst að mannlífinu sem var ansi litríkt. Heimsóttum síðan konungshöllina sem er sú stærsta í Evrópu. Það tók drjúgan tíma en gestum er hleypti inn í ótrúlegan fjölda glæsilegra salarkynna og herbergja. Það er alltaf gaman að sjá hallir og ekki síst þegar kóróna konungs og veldissproti fá að vera til sýnis líka. Um kvöldið fórum við á þekktustu flemenco sýningu borgarinnar "Corral de la Moreria". Það var heilmikið fjör og gaman að sjá að flamenco er sko ekki aldeilis þessi fínlegi glæsilegi dans sem maður hefur oftast séð heldur læti, stapp, fjör og hávaði og kannski ekki síst tröllsleg læti í kvenfólkinu oft á tíðum. Heilmikil upplifun og gaman að sjá þetta. Þetta var sýning með mat og tilheyrandi svo þetta varð heilmikil dagskrá. Síðasti dagurinn í Madri hófst á Reino safninu sem er hér handan við götuna. Risastórt safn sem helst er þekkt fyrir Guernica verkið hans Picasso. Það var stórkostlegt að sjá enda eitt þekktasta verk myndlistarsögunnar. Þarna er líka stórt safn annarra verka eftir PIcasso, Dali, Miro og fleiri snillinga sem var ekki síður gaman að sjá. Aftur á móti var þarna afar skemmtileg sýning á verkum eftir William Kentridge, listamann sem við sáum líka á Ordrupgaard í Danmörku um páskana. Hann er að verða einn af mínum uppáhalds. Alveg hreint magnaður listamaður sem ríkan boðskap í verkum sínum. Ætluðum beint á Prado safnið en tímdum ekki að vera inni þar sem veðrið var svo gott svo við ákváðum að geyma þá heimsókn þar til síðar um daginn. Það reyndust vera mistök ! En við stukkum aftur í strætó og fórum á rúntinn. Enduðum á leikvangi Real Madrid þar sem við heimsóttum safn liðsins. Alveg hreint meiriháttar og miklu miklu stærra en við áttum von á. Þar var maður leiddur efst í stúkuna um alla ranghalana, í búningsherbergið í VIP stúkuna, á varamannabekkinn og út á völlinn fyrir nú utan safnið sjálft sem var gríðarlega skemmtilegt. Meira að segja fyrir mig sem hef hvorki áhuga né vit á fótbolta. Vel þess virði að eyða góðum tíma þarna. Klukkan var því orðin rúmlega sex þegar við komum að Prado safninu og þá trúðum við ekki okkar eigin augum. Röðin að miðasöælunni var svo löng að hún hlykkjaði sig í kringum húsið sem er ekki lítið. Fyrr um daginn var engin röð ! ! ! Þessu nenntum við ekki og ákvaðum bara að koma aftur til Madrid og skoða Prado. Það var ekki fyrr en við komum á hótelið að ég fattaði hvað eiginlega var í gangi þarna en milli kl. 18 og 20 á virkum dögum er ókeypis inn og þá tryllist allt. Hefðum þurft að vita það fyrr um daginn... En það er gott að eiga eitthvað eftir að sjá í þessari fallegu og skemmtilegu borg sem hefur komið mér skemmtilega á óvart.

Comments

Popular posts from this blog

Soria